október 28, 2004

Internetlaus á Cilentro

Jæja, ég gefst upp. Internetið hérna virðist liggja niðri. Ég næ sambandi við routerinn hérna á staðnum en kemst hvorki á netið né get skoðað tölvupóst. Pirrandi.

Ég keypti headset í dag. Ætli ég prufi það ekki á morgun. Einhvern tímann þegar þessi staður er ekki fullur af afkvæmum ríkustu Egyptanna.

Hingað kemur enginn sem á ekki nóg af peningum. Krakkarnir eru klæddir í „vestræn“ föt og eru ótrúlega hávær. Það er reyndar eitt þjóðareinkennið. Hávaði er normið. Ekki einsog þeir séu að reyna að tala hærra en næsti maður en prívatsamtöl hérna eru ekki einu sinni neitt pukur. Ekki nema þegar maður sér ungt fólk af sitthvoru kyni tala saman. Ekki það að flört unga fólksins hérna er sér pistill. Oft gaman að fylgjast með því.

Maður sér yfirleitt fólk ekki haldast í hendur hérna, sem er u.þ.b. mesta framhleypnin sem maður sér í samskiptum kynjanna hérna, fyrr en komið eitthvað yfir tvítugt. Að minnsta kosti í tilfelli karlanna. Það er þá yfirleitt fólk sem er komið með „samþykki“ á sambandið.

Ungu krakkarnir, kannski 17, 18, 19 ára sjást oft í mjög daðurlegum samræðum. Það er þó yfirleitt aldrei minna en metri á milli þeirra. Að fylgja dömunni heim í strætónum virðist vera klassískt. Svo er stoppað í hæfilegri fjarlægð frá heimilinu, kannski á stoppustöðinni, áður en þau halda hvert í sína áttina. Fólk hittist líka á kaffihúsum, hefur mér sýnst. Í a.m.k. 4-6 manna hópum. Fólk dregur sig saman að talar saman. Hópdeit hálfgerð. Auðvitað eru þetta alltaf efri-miðstéttarkrakkar sem ég hef séð, eða þaðan af hærri í sósíalstiganum. Það er svona að búa í uppahverfinu Zamalek. Maður hefur líka séð þetta á pizzastöðunum. Um leið og komið er út á götu skilja kynin og fara heim í sinn hvorum hópnum. Ef eitthvað er hefur mér sýnst það vera ekki alveg eins ríkir krakkar og ég hef fylgst með á kaffihúsunum (altso þessum með vestræna stílnum, ekki traditional köhwum). Kannski ekki skrítið þegar kaffibollinn á svona stað getur kostað það sama og þú kemst af með sem hæfilega iftarmáltíð á Pizza Hut eða Little Caesar’s.

Og aftur, þá eru þau mörg hver ennþá með skólatöskurnar og jafnvel í skólabúningum þegar ég hef séð þau brjóta föstuna í iftarnum. Kosturinn við það er líka að enginn sómakær fullorðinn myndi borða iftar á Pizza Hut eða álíka stað. Krakkarnir eru því í friði fyrir guði og mönnum, mingla, daðra, hlæja – og tala hátt!

Og hvað sem fyrirhyggjufemínistar í Evrópu halda, þá eru „slæðustelpurnar“ alveg jafn slæmar/góðar og hinar. Einna helst að maður sér þær framhleypnustu, í þrengri fötunum, ekki ganga með hijab.

Hér mætir maður, rétt einsog í Evrópu, stelpum með hijab í rándýrum merkjafötum, með sólgleraugu og gsmsíma. Sumir „réttsýnir“ Evrópubúar hefðu gott af því að koma hingað áður en þeir tapa sér í að gera þetta „kúgunartákn“ ólöglegt. Egypskar konur hafa verið að taka upp hijabinn í auknu mæli aftur. Eftir femínistahreyfingu 20. aldarinnar hérna, sem risti svosem ekki djúpt samfélagslega séð, þá sér maður margar karrierkvinde hérna slæðuklæddar. Fæstar eru í abayju með öllu tilheyrandi en hijabinn er þeirra tákn.

Af hverju fór ég að tala um hijabinn? Kannski vegna þess að andúð Evrópubúa á honum pirrar mig. Þetta er svona álíka einsog að ætla að dæma menn eftir skeggvexti. Skeggjaðir menn hafa í gegnum tíðina haft tilhneigingu til að vera rótækari en þeir sem raka sig reglulega, þannig að það má leiða líkur að því að skeggjaðir menn séu hættilegri en rakaðir. Umbúðir versus innihald. Heimurinn er ekki svart/hvítur.

Með þeim orðum ætla ég að koma mér úr hávaða egypsku krakkanna og kíkja á stað sem Yann vill endilega prufa.
Þriggja daga helgi fram undan. Ég þarf að tala við Magamma-ið á laugardaginn. Öllum er illa við hið seinvirka Magamma hérna. Kafkaískt skrifræði er ekkert grín!
Agust skrifaði 28.10.04 20:50 (GMT+2)
(Íslenska)