október 31, 2004

Mugamma

Í Annie Hall, þegar Woody Allen og Diane Keaton eru sundur hittir hann blaðakonuna frá Rolling Stones sem segir við hann, þegar hún situr í rúminu hans með sígarettu, „Sex with you is really a Kafka-esque experience“. Slíka upplifun átti ég í dag.

Í morgun vaknaði ég snemma því ég þurfti að gera það sem enginn vill þurfa að gera hér í Egyptalandi: Heimsækja Mugamma. Mugamma er stórt hús við eitt aðaltorg borgarinnar. Virðist reisulegt að sjá en þegar nær kemur sést að sumstaðar eru loftræstikassarnir að því er virðist að detta úr veggjunum. Ástand hússins er e.t.v. táknrænt. Í Mugamma er ýmiskonar stjórnsýsla ríkisins, á líklegast 20 hæðum – sem eru hver um sig svo stór að það virðist alltaf vera gangur handan við hornið.

Á annarri hæðinni er „útlendingaeftirlitið“, málefni flóttamanna o.þ.h. vesen. Básarnir eru númeraðir og eru ca. 50 talsins. Þrír flokkar útlendinga virðast vera skilgreindir: Arabar, Palestínumenn og „non-Arabs“. Flestir sem vinna í þessari deild eru konur á miðjum aldri. 2-3 fyrir hvern bás. Ekki tölva sjáanleg, nema í sérstöku herbergi fyrir miðjum helmningi hæðarinnar sem þessi hluti stjórnsýslunnar tekur í þessu lygilega stóra húsi sem verður best lýst sem „byggt í austur-evrópskum bírókrasíustíl“.

Í dag var víst bærilega lítið að gera. Tveir hópar voru áberandi, svartir Súdanar að útvega sér 3-5 ára dvalarleyfi og 16-18 ára strákagemlingar frá Singapore, Indónesíu og öðrum SA-Asíulöndum að útvega sér tímabundin námsleyfi. Þeir þykjast geta safnað skeggi og ganga með vasa-Kórann á sér (vasa-Kóraninn þarf ég að útskýra við tækifæri).

Hvað um það, vopnaður passamyndum sem ég lét taka af mér á okurkjörum á jarðhæðinni mætti ég í básinn þar sem form og frímerki eru keypt. (Fyrir Íslending er þessi frímerkjaárátta mér framandi.) Fyllti út formið, frekar auðvelt, hjálpaði m.a.s. ráðvilltum hollenskum hjónum að rata í réttan bás fyrir endurkomuáritun og hélt nú aldeilis að hryllingssögurnar sem ég hafði heyrt af Múgammanu væru skröksögur og mætti glaðhlakkalegur í bás 12, þar sem madam á sextugsaldri tók á móti mér. Hún heimtaði ljósrit af passanum mínum og upprunalegu vegabréfsáritunni. Ég bölvaði fávisku minni, hefði átt að geta sagt mér þetta sjálfum.

Þannig ég hljóp niður og lét ljósritapassann og aftur upp. Í vopnaleitinni á 2. hæð hitti ég franskan strák sem var í sömu sporum og ég. Hann var akkurat á sama stigi í ferlinu og stóðum við samn í röðinni við bás 12. Á undan okkur í röðinni var tæplega þrítugur Singapúri, greinilega strangtrúarmúslimi, að sækja um vegabréfaáritun fyrir sig og fjölskylduna. Madam 12 gerði honum lífið leitt. Egyptar eru stríðnir og spaugsamir. Ég hafði hinsvegar ekki orðið var við kaldhæðni í þessu mæli áður. Saman töluðu þau á arabísku – algjörlega óskiljanlegt fyrir mig að hlusta. Inntakið leyndi sér samt ekki. Þegar Madam 12 fór í gegnum pappíra Singapúrans yfir hjúpskap hans og börn fann maður í röddinni hvernig hún véfengdi alla pappírana, af hreinni stríðni. Súdanirnir sem voru að fá afgreiðslu í næsta bás (fyrir Arabaþjóðir) skemmtu sér konunglega. Ha? Gat hann átt svona fallega konu? O-jæja, heimanmundurinn var nú dágóður. Börnin líktust honum ekkert, voru þetta örugglega réttir pappírar? Maður varð einhvern veginn að skálda í eyðurnar. Eiginkonan? Nei, hann geymdi hana auðvitað heima. Vesalings guðsmaðurinn með ritjulega skeggið var vandræðalegur og tvísteig. Súdanirnir glottu.

Þá var röðin komin að mér. Æslanda. Íslanda. „Ah! North, like Skandinavia“ heyrðist frá borðinu fyrir aftan þegar Madam 12 reyndi að fletta Íslandi upp í reglubókinni, sem var handskrifað hefti með nokkrum blöðum. Íslanda, Íslanda, nei, ekkert Íslanda hér. O-jæja, Evrópa, það hlýtur að sleppa. „Six months,“ sagði Madam og skrifaði upplýsingarnar um mig í stóran log. Skellti pappírunum mínum á borðið fyrir aftan sig. „Twelve o’clock, number 38“.

Það var því ekkert annað að gera en bíða næstu 40 mínúturnar. Sex mánuðir – og ég bað bara um tvo – þetta kallar maður effektískt skrifræði!

Klukkan tólf. Búinn að lesa Int’l Herald Tribune sem ég keypti á leiðinni og Daily Star, líbanska dagblaðið sem fylgir því hérna í Mið-Austurlöndunum. Arafat veikur, í bláum náttfötum með skíðahúfu, framtíð Tyrklands og vextir hækka í Kína. Það var og.

Klukkan rúmlega tólf er ég búinn með bæði blöðin og tek mér stöðu í biðröðinni við bás 38. Kemst að og spyr um Æslanda, Íslanda. Nei, ekkert bólar á passanum.

Klukkan að verða eitt er ég farinn að leiðast biðin. Singapúrinn sem Madam 12 gerði lífið leitt kominn með þrjá passa af fjórum – og þarna fékk hann þann fjórða – og er þar með farinn. Hverju ætli þetta sæti. Krónískt taugaveiklun mín gagnvart öllum eyðublaðaútfyllingum fer að gera vart við sig. Ætli ég hafi fyllt eitthvað vitlaust út og þess vegna er passinn stopp í ferlinu einhvers staðar. Hefði ég átt að segja bara „travel“ en ekki „study“ sem ástæða fyrir umsókn um tímabundið dvalarleyfi? Jävla!

Eftir að hafa gefið madömunni augnaráð píslarvottsins í smá tíma fann hún sig knúna til að standa upp frá bási sínum og kanna hvað hafi orðið um passa Íslendingsins. Að vörmu spori snéri hún aftur og þegar ég spurði hana frétta sagði hún að umsóknin mín væri í vinnslu. Nú jæja.

Klukkan rúmlega eitt var ég farinn að vera frekar pirraður. Vonsviknissvipur þess sem hefur verið svikinn var næsta taktík og madamman stóð aftur upp. Var lengur í þetta skiptið. Snéri aftur og sagði eitthvað við hina sem var að afgreiða með henni. Eina orðið sem ég skildi var Æslanda. Klukkan orðin rúmlega eitt. Þeir hætta að taka við umsóknum klukkan eitt, þannig þetta hlýtur að fara að koma. Skipti yfir í svip þess sem gefið hefur upp alla von og starði á gólfið, eftir að hafa séð afsökunarlegan svipinn á madam.

Fljótlega eftir þetta fór að hægjast um hjá þeim. Raunar svo mikið að það voru nánast engir eftir til að heimta vegabréfin sín til baka. Portúgölsk stelpa sem hafði verið þarna undir það síðasta gaf sig á tal við mig. Hún sagðist lenda ítrekað í því að vera skráð búlgörsk. Ég sagðist á móti hafa þurft að sýna hvar í heiminum Ísland væri.

Vinkona mín í bás 39, sem virtist gera það sama og sú í bás 38, furðaði sig á þessu með íslenska passann við samstarfskonu sína. Stóð enn aftur upp og fór inn í herbergið þar sem tölvurnar voru.

Ég og portúgalska stelpan, sem ég spurði aldrei að nafni, héldum áfram tali okkar um Evrópusambandið og áhrif þjóðaratkvæðagreiðslna á þróun þess í framtíðinni. Já, hvað annað ættu tveir Evrópubúar, annar að læra arabísku og hinn að taka master í stjórnmálum Mið-Austurlanda, að tala um þegar þeir hittast í skrifræðisbákni egypska ríkisins en Evrópusamrunann? Raunar fannst mér merkilegra að komast á tveimur mínútum í þessa umræðu en sú portúgalska var forvitin um umræðuna um ESB á Íslandi.

Íslanda! Íslanda! Frúin í bás 38 veifaði passanum mínum hátt á lofti. Loksins. Til að ljúka leiknum gaf ég þeim svip hins þakkláta sem gefið hefur upp vonina en uppsker samt að lokum. Sjúkrannaði innilega fyrir mig.

Sú portúgalska bað um að sjá áritunina. Rak upp stór augu. Tölvugerð áritun, það hafði hún ekki áður séð, hafandi búið hérna í tvö ár. Kannski það hafi verið ástæðan fyrir því að þetta tók svona langan tíma. Loksins þegar þeir fundu í skránni hvort Íslendingar fengju að dvelja hérna þá hafa þeir ekki þorað öðru en að gefa mér tölvuáritun, verandi með svona nýtískulegan og fínan passa, með strikaröndum og alles (þó ekki nógu nýtískulegur fyrir Bandaríkin).

Rétt náði að segja það sem ég vildi segja um gildistöku evrunnar við þá portúgölsku áður en síminn hennar hringdi. Kvaddi hana þá og hélt út á Tahrir-torg, með dvalar- og námsleyfi í passanum mínum – til 17. apríl 2005.

Skrifað heima á Mahmoud Azmy
Agust skrifaði 31.10.04 01:00 (GMT+2)
(Íslenska)