apríl 22, 2005

Dýragarðurinn

Ég hef verið skammarlega latur við að skrifa á þessa síðu. Nú skal úr því bætt (af veikum mætti).

Mitt helst afrek síðustu tvær vikur, fyrir utan að reyna að læra eitthvað í arabísku og lifa mínu ljúfa lífi hérna, var að heimsækja grafreitinn fyrir utan borgina sem oft er kallaður "Borg hinna dauðu". Í þessari borg/grafreit búa nefnilega hátt í tvær milljónir manna. Ansi mögnuð sjón að koma þangað. Set myndir inn eftir helgi.

Í vikunni heimsótti ég svo dýragarðinn í Giza. Þetta er gamall og stór dýragarður, einsog allar helstu borgir Evrópu státuðu af hér áður fyrr - áður en dýravernd varð tískuorð dagsins og flestir dýragarðarnir eru nú vart svipur hjá sjón.

Í Kaíródýragarðinum eru ýmis dýr og kvikindi. Krókódílar og allskonar afrísk dádýr, enda svosem stutt að sækja þau. Risa-landskjaldbökur lágu makindalega í sólinni og bitu gras. Skemmtilegastir af öllum voru þó babúnarnir. Þeir búa 30 saman, þar af 3-4 karldýr, og lætur ungviðið öllum illum látum.
Aðgangseyririnn er 25 kasr, 3 kr. íslenskar. Fyrir vikið er dýragarðurinn notaður helst sem almenningsgarður, enda heimsins minnsta framboð á grænum reitum fyrir almenning í þessari borg - nema fyrir þá sem geta keypt sig inn í einkaklúbbana. En þar sem verðið er viðráðanlegt fyrir alla fylkjast þangað fjölskyldur í picknick og hinir alræmdu egypsku "krúserar". Fyrir vikið fengu vinkonur mínar tvær sem fór með mér óskipta athygli frá hormónabullunum.
Annað merkilegt við dýragarðinn var að við sáum tvö ung pör kyssast opinberlega. Það er nokkuð sem ekkert okkar hafði séð hérna áður.
En aftur að dýragarðinum sjálfur, þá er þetta einsog að heimsæja hvern annan dýragarð fyrir 30-40 árum síðan. Dýrin er í frekar litlum gerðum og búrum og t.d. fíllinn bundinn við húsvegg svo fólk geti myndað sig betur með honum. Skemmtun gestanna af dýrunum er frekar í fyrirrúmi en velferð þeirra.
Agust skrifaði 22.04.05 19:04 (GMT+2)
(Íslenska)