október 19, 2004

Einhvers staðar yfir Póllandi

Nú er tæpur klukkutími liðinn af flugi Maersk Air frá Kaupmannahöfn til Kaíró. Áætlaður flugtími eru tæpir fjórir tímar og er það styttra en lagt var upp með í byrjun. Ég er ekki frá því að – a.m.k. enn sem komið er – er þetta allra þægilegasta flug sem ég hef flogið. Ekki síst er því að þakka að ég hef aldeilis dottið í lukkupottinn með það að söluskrifstofa Maersk hefur ákveðið að færa mig upp um einn flokk frá því sem ég bað um upphaflega. Ég pantaði “medium” stærð en sit hér í “large” sæti. Tvær sætaraðir af “saga class” sætum, sem hjá Maersk heita XL eru ónotuð fyrir framan mig. Ég borgaði 200 DKK fyrir millistærðina en stóru sætin kosta 200 DKK til viðbótar. Enn bætast við 1000 danskar við miðaverðið ef valið er XL sæti (þetta miðast allt við hvern legg, þ.e.a.s. aðra leiðina). Fótrýmið sem ég hef er 90 cm, ætlaði að hafa 80 cm en venjulegt fótarými hjá Maersk er 70 cm. Verðið á almennu sætunum eru sambærileg við önnur lággjaldafélög, 5-10 þús. íslenskar en til Kaíró, sem er lengra en til Íslands kostar svipað og að fljúga með Iceland Express til Køben, 23-24 þús. íslenskar báðar leiðir.

Nú kann ég hljóma einsog versti ryksugusölumaður en ég er að fíla conceptið á bak við business planið hjá Maersk alveg í botn. Þetta er “lággjaldaflugfélag” og flýgur aðallega stuttar ferðir innan Evrópu en alls staðar býður það upp á þessa valkosti. Fólk getur stækkað fótarýmið um 10 cm fyrir 200 danskar krónur ofan á miðaverðið. Í “venjulegu sætunum” er reyndar keyrt á týpísku lággjaldaflugfélaga concepti, að þú getur ekki valið þér sæti heldur ertu einfaldlega tékkaður inn í sæti rétt fyrir flug, sama fyrirkomulag og Iceland Express hefur.

Ef við berum Maersk og Iceland Express örlítið saman, þá er flug frá CPH til CAI að kosta svipað hjá Maersk og CPH til KEF hjá I.E. Flugtíminn til CAI er klukkutímanum lengri. Hinsvegar færðu t.d. að borga 100 kr. íslenskar fyrir kaffibollann hjá I.E. og samlokur er það eina sem þér býðst til að seðja hungrið. Í sumar þegar ég flaug með I.E. var ábótin á kaffið undir flugfreyjunni komið og hversu koffínþyrstum augum þú gast horft á hana þegar hún sagði að það væri ekki ábót. Nú kynna flugfreyjurnar með stolti að ábót bjóðist – en skammturinn kostar engu að síður 100 kr. Maersk skilur lögmálið um exponential costumer satisfaction og þess vegna er kaffið ókeypis – og ábót boðin reglulega. Munar litlu fyrir flugfélagið en miklu fyrir kaffisvelgi.

Matseðillinn hjá Maersk er heldur lengri en hjá I.E: samlokur, tapas-pakkar, pasta og pizzasneiðar. Með þessu er hægt að fá bjór, hvítt og rautt og auðvitað margskonar gos. Barinn hefur ágætt úrval þó Renault koníakið heilli undirritaðan lítið. Þegar við Hákon fórum til Brussel með HR-hópnum keypti ég það sem átti að vera VSOP koníakið frá Renault, sem þá var á sérstöku tilboði í Fríhöfninni. Okkur báðum þykir koníak gott en flaskan, hálfur lítri ef ég man rétt, var tvisvar eða þrisvar sinnum snert eftir að við brögðuðum á veigunum fyrsta kvöldið. Það mátti hafa þetta ofan í sig sem magamixtúru en þetta er versta koníak sem ég hef drukkið, enda legg ég ekki í vana minn að spara þegar að því kemur á annað borð – þá er alveg eins gott að sleppa því. Máltíðir hjá Maersk er einnig hægt að panta nokkrum dögum áður, í gegnum netið. Það á að tryggja manni flesta mögulega valkosti. Máltíðirnar kosta 40-55 danskar, litlu meira en 300 krónu samlokan hjá Express en á móti kemur að í samlokurnar einsog þá sem ég borðaði áðan er notað gott brauð en hitt er óttarlegur Sómi.

Líklegast er það fríhafnarkaupæði Íslendinga og þeim kúltúr sem við höfum í kringum utanlandsferðir, frá þeim tíma að allt var margfalt dýrara á Íslandi, að Iceland Express er með “sölu um borð” í næstum sama magni og Flugleiðir. Í bæklingnum hér tel ég ekki nema 12 item sem boðið er upp á af snyrtivörum, tvær gerðir af sælgæti, penna, sólgleraugu, tvenns konar skartgripi og Magnús, sem er banginn sem Maersk selur merkt sér.

Og nú segir skjárinn í loftinu mér að við séum alveg að nálgast Búdapest. Þessi flugferð hefur liðið svo hratt að ég trúi því ekki! Og nú býður flugfreyjan mér þriðju ábótina. Svona á þetta að vera!

Eitt hef ég áhyggjur af. Það er að þó svo að Maersk bjóði þessa flugleið ekki nema einu sinni í viku, á þriðjudögum, þá er vélin hálf tóm. Ætli það sé ekki setið í þriðja hverju sæti. Slík sætanýting er langt undir arðsemiskröfum. Það er beinlínis tap af þessu flugi í dag hjá þeim. Ég vona samt að þeir haldi áfram að fljúga á Kaíró, því ég ætla sannarlega að fljúga með þeim heim í desember. Ekki það að það verður að hafa í huga að þetta er flugferð nr. 2 til Kaíró hjá þeim. Því þeir hófu að fljúga þangað 12. október. Þeir fljúga líka á Beirút (sem reyndar byrjar ekki fyrr en seinna í vetur) og e.t.v. mun það flug ekki heldur standa undir sér. Það er þá bara að vona að þeir sameini flugleiðirnar frekar en að cancella þeim. Ég sé í magasíninu þeirra að Færeyja-flugið ætla þeir að leggja niður frá og með nóvember. Þangað flaug félagið bæði frá CPH og Billund. Á sama tíma mun flug til Lyon leggjast af og nokkri áfangastaðir aðeins verða á sumaráætlun félagsins. Á móti munu þeir í lok ársins hafa tekið upp 10 nýjar flugleiðir, m.a. til Rómar, Möltu og Berlínar. Nokkrar sumaráætlanir eru í gangi, t.d. til Istanbúl en þangað fljúga þeir bara í tvo mánuði yfir hásumarið.

Ein af helstu ástæðum þess að Iceland Express er jafn dýrt lággjaldaflugfélag sem raun ber vitni er að stærðarhagkvæmni hjá flugfélagi sem flýgur tvær flugleiðir er varla til sem hugtak. Maersk verður í lok ársins með 4 áfangastaði frá Billund og 22 áfangastaði frá CPH, auk Tenerife og Gran Canari sem er aðeins yfir veturinn. Sumaráfangastaðirnir eru samtals 9. Maersk flýgur til Standsted bæði frá Billund og CPH. Ég sé samlegðaráhrifin fyrir mér, auk þess sem að með concepti Maersk væri Iceland Express fyrirtaks flugfélag. Auðvitað hef ég enga trú á að Maersk yfirtaki I.E. – en það má alltaf láta sig dreyma :-)

Nú ætla ég að láta gott heita, þessa lofrullu um Maersk Air. Þetta er Ágúst Flygenring, ferðalangur, sem kveður nokkur þúsund metrum yfir Belgrad í Serbíu.
Agust skrifaði 19.10.04 14:00 (GMT+2)
(Íslenska)